Saga hljóðfæraverslunarinnar Rín
Hljóðfæraverslunin Rín var stofnuð árið 1942 af Stefáni og Herdísi Lyngdal. Keppinautar hafa komið og farið í áranna rás, en Rín hefur staðið traustum fótum í hljóðfæraviðskiptum í yfir 70 ár.
Þegar búðin var opnuð geisaði stríð og vörur fengust ekki nema frá Austur-Evrópu. Hljóðfærastreymið um Rín hefur aukist að umfangi og fjölbreytni í áranna rás, en úrvalið hefur mótast af tísku hvers tíma.
Stefán Lyngdal var þekktur harmónikkuleikari á sinni tíð og nikkan skipaði verulegan sess í hillum Rínar.
Auk hljóðfæra voru í upphafi einnig seldar rafmagnsvörur og ljósabúnaður. Verslunin var fyrst á Njálsgötu 23 og um tíma með útibú á horni Laugavegar og Vitastígs.
Stefán og Herdís festu síðan kaup á húsnæði Rínar við Frakkastíg skömmu áður en Stefán lést árið 1962. Búðin stóð þar í ein 40 ár eða þar til plássleysið fór að segja til sín.
Hljóðfæraverslunin Rín flutti starfsemi sína að horninu á Stórholti og Brautarholti í júlí 2004. Árið 2014 flutti Rín að Grensásvegi 12 og sameinast þar verslun HljóðX.
Núverandi eigandi Rínar er ID Electronic ehf. sem einnig rekur fyrirtækið HljóðX, hljóð-, ljósa- og myndkerfaleigu og sölu á Grensásvegi 12, Reykjavík og Drangahrauni 5, Hafnarfirði.